Upplýsingalög

1996 nr. 50 24. maí

Tóku gildi 1. janúar 1997. Breytt með l. 76/1997 (tóku gildi 1. júlí 1997) og l. 83/2000 (tóku gildi 2. júní 2000 nema 1. gr. sem tók gildi 1. jan. 2001).


I. kafli. Gildissvið laganna.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.
Lögin taka enn fremur til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.
2. gr. Gildissvið gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarsamningum.
Lög þessi gilda ekki um þinglýsingu, aðfarargerðir, kyrrsetningu, löggeymslu, lögbann, nauðungarsölu, greiðslustöðvun, nauðasamninga, gjaldþrotaskipti, skipti á dánarbúum eða önnur opinber skipti, né heldur um rannsókn eða saksókn í opinberu máli.
[Lögin gilda ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Lögin gilda heldur ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. laga þessara tekur til. Þá gilda lögin heldur ekki ef á annan veg er mælt í þjóðréttarsamningum sem Ísland á aðild að.]1)
Ákvæði annarra laga, sem heimila víðtækari aðgang að upplýsingum, halda gildi sínu. Almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarka ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum þessum.
   1)
L. 83/2000, 1. gr.

II. kafli. Almennur aðgangur að upplýsingum.
3. gr. Upplýsingaréttur.
Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.
Réttur til aðgangs að gögnum nær til:
   
1. allra skjala sem mál varða, þar með talinna endurrita af bréfum sem stjórnvald hefur sent, enda megi ætla að það hafi borist viðtakanda;
   
2. allra annarra gagna sem mál varða, svo sem teikninga, uppdrátta, korta, mynda, örfilma og gagna sem vistuð eru í tölvu;
   
3. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn.
Stjórnvöldum er heimilt að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en kveðið er á um í þessum kafla, nema fyrirmæli laga um þagnarskyldu standi því í vegi.
4. gr. Gögn undanþegin upplýsingarétti.
Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til:
   
1. fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og skjala sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi;
   
2. bréfaskipta stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað;
   
3. vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá;
   
4. umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og allra gagna sem þær varða; þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.
5. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.
Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.
6. gr. Takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna.
Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um:
   
1. öryggi ríkisins eða varnarmál;
   
2. samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir;
   
3. viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra;
   
4. fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði.
7. gr. Aðgangur að hluta skjals.
Ef ákvæði 4.–6. gr. eiga aðeins við um hluta skjals skal veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins. Sama regla á við um önnur gögn.
8. gr. Takmarkalaus upplýsingaréttur að tilteknum tíma liðnum.
Veita skal aðgang að gögnum sem 4. tölul. 6. gr. tekur til jafnskjótt og ráðstöfunum eða prófum er að fullu lokið, nema ákvæði 5. gr. eða 1.–3. tölul. 6. gr. eigi við.
Veita skal aðgang að öðrum gögnum sem 4.–6. gr. taka til þegar liðin eru þrjátíu ár frá því að gögn urðu til, að frátöldum upplýsingum er varða einkamálefni einstaklinga, en aðgang að þeim skal fyrst veita að áttatíu árum liðnum frá því að þau urðu til. …1)
   1)
L. 76/1997, 4. gr.

III. kafli. Aðgangur aðila að upplýsingum um hann sjálfan.
9. gr. Upplýsingaréttur aðila.
Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.
Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki:
   
1. um þau gögn sem talin eru í 4. gr.;
   
2. um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni er leynt eiga að fara skv. 6. gr.
Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.
[Um aðgang sjúklings að upplýsingum úr sjúkraskrá fer eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.]1)
Ákvæði 3., 7. og 8. gr. gilda, eftir því sem við getur átt, um aðgang aðila að gögnum.
   1)
L. 76/1997, 5. gr.

IV. kafli. Málsmeðferð.
10. gr. Beiðni um aðgang að upplýsingum.
Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.
Stjórnvald getur sett það skilyrði að beiðni um aðgang að gögnum sé skrifleg og komi jafnframt fram á eyðublaði sem það leggur til.1)
Þegar farið er fram á aðgang að gögnum um mál þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem hefur gögnin í sínum vörslum.
   1)
Rg. 674/1996.
11. gr. Málshraði og málsmeðferð.
Stjórnvald skal taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.
12. gr. Ljósrit eða afrit af gögnum.
Stjórnvald tekur ákvörðun um hvort umbeðin gögn skuli sýnd eða hvort ljósrit skuli veitt af skjölum eða afrit af öðrum gögnum sé þess kostur.
Sé farið fram á að fá ljósrit af skjölum skal orðið við þeirri beiðni, nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé vandkvæðum bundið.
Þegar fjöldi skjala er mikill getur stjórnvald ákveðið að fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra. Hið sama á við hafi stjórnvald ekki aðstöðu til að ljósrita skjöl. Þá skal aðili greiða þann kostnað sem hlýst af ljósritun skjalanna.
Forsætisráðherra er heimilt að ákveða með gjaldskrá1) hvað greiða skuli fyrir ljósrit sem veitt eru samkvæmt lögum þessum.
Reglur 2.–4. mgr. eiga einnig við um afrit af öðrum gögnum en skjölum eftir því sem við á.
   1)Gjaldskrá 579/1996
.
13. gr. Tilkynning ákvörðunar.
Ákvörðun stjórnvalds um að synja beiðni um aðgang að gögnum eða um ljósrit eða afrit af þeim skal tilkynnt skriflega ef beiðni hefur verið skrifleg.

V. kafli. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
14. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum.
Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar samkvæmt lögum þessum ekki skotið til annarra stjórnvalda.
15. gr. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Forsætisráðherra skipar þrjá menn í úrskurðarnefnd um upplýsingamál til fjögurra ára og jafnmarga til vara. Skulu tveir nefndarmenn og varamenn þeirra uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar en hinn varaformaður. Nefndarmenn mega ekki vera fastráðnir starfsmenn í Stjórnarráði Íslands.
Nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á.
[Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem fram kemur í gögnum er nefndinni eru látin í té. Sama gildir um þá sem hún kann að kveðja sér til aðstoðar.]1)
   1)
L. 83/2000, 2. gr.
16. gr. Málsmeðferð.
Mál skv. 1. mgr. 14. gr. skal borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun.
Nefndin getur veitt hlutaðeigandi stjórnvaldi stuttan frest til þess að láta í té rökstutt álit á málinu áður en því er ráðið til lykta. [Stjórnvaldi er skylt að láta nefndinni í té afrit af þeim gögnum er kæra lýtur að.]1)
Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns.
Um meðferð mála hjá úrskurðarnefndinni fer að öðru leyti eftir VII. kafla stjórnsýslulaga.
   1)
L. 83/2000, 3. gr.
17. gr. [Birting og aðfararhæfi úrskurðar.]1)
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal birta úrskurð þeim sem fór fram á aðgang að gögnum og því stjórnvaldi sem í hlut á svo fljótt sem verða má.
Ef nefndin hefur tekið til greina beiðni um aðgang að gögnum ber stjórnvaldi að veita aðgang að þeim jafnskjótt og úrskurður hefur verið birtur, nema þess sé krafist að réttaráhrifum hans verði frestað skv. 18. gr.
[Úrskurður samkvæmt lögum þessum um aðgang að gögnum eða afrit af þeim er aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað.]1)
   1)
L. 83/2000, 4. gr.
 18. gr. Frestun á réttaráhrifum úrskurðar.
Að kröfu stjórnvalds getur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. …1)
[Skal frestun á réttaráhrifum bundin því skilyrði að stjórnvald beri málið undir dómstóla innan sjö daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað.]1)
   1)
L. 83/2000, 5. gr.
19. gr. Útgáfa úrskurða.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal árlega gefa út úrskurði sína eða útdrætti úr þeim.

VI. kafli. Aðgangur að gögnum hjá Þjóðskjalasafni Íslands og öðrum opinberum skjalasöfnum.
20. gr. Aðgangur að gögnum eftir að þau hafa verið afhent söfnum.
Þegar gögn þau sem lög þessi taka til hafa verið afhent Þjóðskjalasafni Íslands eða öðru opinberu skjalasafni skal hlutaðeigandi safn taka ákvörðun um hvort umbeðin gögn skuli sýnd eða hvort ljósrit skuli veitt af skjölum eða afrit af öðrum gögnum sé þess kostur.
Ef vafi er um rétt til aðgangs að gögnum getur safnið aflað rökstuddrar umsagnar þess stjórnvalds sem afhenti safninu gögnin áður en ákvörðun er tekin.
21. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að bera synjun um að veita aðgang að gögnum, ljósrit af skjölum eða afrit af gögnum skv. 20. gr. undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál skv. 14. gr.

VII. kafli. Skráning mála o.fl.
22. gr. Skráning mála.
Stjórnvöldum er skylt að skrá mál, sem koma til meðferðar hjá þeim, á kerfisbundinn hátt og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg.
Forsætisráðherra er heimilt, að fengnu áliti þjóðskjalavarðar, að gefa út reglugerð þar sem mælt er fyrir um hvernig skjalastjórn skuli hagað í stjórnsýslu ríkisins, þar með talið hvers konar tölvuhugbúnað skuli nota.
23. gr. Skráning upplýsinga um málsatvik.
Við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, ber stjórnvaldi að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess.

VIII. kafli. Gildistaka o.fl.
24. gr. Gildistaka laganna.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.
Ákvæði laganna gilda um öll gögn án tillits til þess hvenær þau urðu til eða hvenær þau hafa borist stjórnvöldum.
25. gr. Breytingar á öðrum lögum.